154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:19]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Í fjárlögum yfirstandandi árs var lögð mikil og hörð áhersla á að ná 17 milljarða kr. ráðstöfunum í aðhald til að hægja á útgjaldavexti og hér erum við að sjá 13 milljarða kr. viðbótarútgjöld sem fara langleiðina að þeirri hagræðingarkröfu. En gott og vel, þetta er skilgreint sem ófyrirséð sem rennir stoðum undir þá kenningu okkar í minni hlutanum að það hafi í rauninni ekki verið nein stefna á bak við þessar aðgerðir, það hafi í rauninni verið á forsendum annarra sem gripið var inn í. En hvernig á að fjármagna þetta? Það er auðvitað stóra spurningin. Ef gripið er niður í texta fjáraukalagafrumvarpsins kemur í ljós að tekjur eru reyndar áætlaðar hærri á þessu ári en áður var búist við, um 11 milljarðar, sérstaklega í tengslum við endurmat á afskriftum skattkrafna í samræmi við breytta aðferðafræði og hærri arðgreiðslur frá Landsvirkjun.

Hvað þýðir þetta á mannamáli fyrir fólkið þarna úti? Jú, það virðist sem svo að ákveðið hafi verið að fjármagna kjarasamningana á þessu ári með því að knýja fram hærri arðgreiðslur frá Landsvirkjun, a.m.k. er það svo að það bættust við 10 milljarðar kr. frá Landsvirkjun á svipuðum tíma og samið var um kjaraaðgerðirnar. Síðan eru þessar bókhaldsbreytingar, breytingar sem fjármálaráð hefur gert athugasemd við að séu í raun bara breytingar á reiknaðri stærð og ekki hægt að telja sem raunverulegt aðhald.

Auðvitað er það svo, forseti, að fjárhagsstaða Landsvirkjunar er mjög góð og ég hef í rauninni ekkert áhyggjur af þessari arðgreiðsluviðbót per se, en það sem ég spyr mig þá að, forseti, er: Hver er raunveruleg auðlindastefna þessarar ríkisstjórnar? Hér á eftir á að mæla fyrir frumvarpi um þjóðarsjóð þar sem á einmitt að passa upp á að það séu ekki svona greiðslur fyrir sérstök verkefni. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Tengist þessi greiðsla frá Landsvirkjun fjármögnun á kjarasamningunum?